Vinátta Virðing Víðsýni Vellíðan

Leikskólinn Miðborg er 7 deilda leikskóli sem tók til starfa 1. júlí 2011 við sameiningu þriggja leikskóla; Lindarborg sem er staðsett á Lindargötu 26, Njálsborgar sem er á Njálsgötu 9-11 og Barónsborgar á Njálsgötu 70.

Leikskólinn Miðborg er staðsettur í miðbæ Reykjavíkur og nýtum við fjölskrúðugt umhverfi leikskólans til ýmissa upplifana þar sem mannlíf og menningin er afar fjölbreytt. Við leggjum áherslu á að efla samvinnu og samstarf við nærumhverfið í miðbænum sem er iðandi af mannlífi og menningu sem gefur kost á skemmtilegum og fjölbreyttum vettvangsferðum sem geta gefið börnunum innsýn í samfélagið í sinni víðustu mynd. 

Að meðaltali eru 130 börn í Miðborg samtímis og er aldursblöndun barnanna mismunandi á milli deilda og aðstæðna hverju sinni. Deildarnar heita Regnbogaland, Krílakot, Klöpp, Hæð, Krossfiskadeild, Kuðungadeild og Skeljadeild. Á Hæð dvelja elstubörn leikskólans.

Markmið

Stefna og sýn leikskólans er í vinnslu en fjölmenning er lykilþáttur í starfi leikskólans þar sem margbreytileiki allra sem að honum koma njóti sín alla daga ársins. Tekið er mið af því að enginn er eins en allir geta verið með á sínum forsendum þar sem styrkleiki samfélagsins felst í fjölbreytni.

Leiðarljós

 • Þroski og velferð barnanna er ávallt höfð að leiðarljósi
 • Hverju barni er mætt á forsendum þess
 • Foreldrar mæta skilningi í leikskólanum og fá tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri
 • Samskipti eru opin, jákvæð, heiðarleg milli allra í leikskólasamfélaginu

 • Barónsborg

  Barónsborg

  Barónsborg er ein af starfstöðum Miðborgar en húsið var byggt árið 1950. Húsið er timburhús á einni hæð og er eitt fyrsta húsið sem byggt er sem leikskóli í borginni. Húsið stendur á horni Njálsgötu og Barónsstígs, rétt fyrir neðan sundhöll Reykjavíkur. Skólinn var rekinn sem fjögurra tíma leikskóli þar til árið 1997 að farið var að taka börn í heilsdagsvistun. Tvisvar hefur verið byggt við húsið til að bæta aðstöðuna. Árið 1994 var aðstaða starfsfólks bætt og einnig aðstaða barna til listsköpunar. Árið 2000 var svo bætt við eldhúsi og gangi er snýr að garði ásamt þvottahúsi. Húsið er í dag um 210 m/2 að stærð. Í heimastöðinni Barónsborg dvelja 29 börn samtímis. Í Barónsborg eru tvær deildar: Regnbogaland og Krílakot.

  Í Miðborg - Barónsborg - eru börn frá 18 mánaða til 4 ára. 

  S: 411-3570

  stadsetning Barónsborg

 • Lindarborg

  Lindarborg

  Starfstöðin Lindarborg  er stendur við Lindargötu 26 og er staðstet í svokölluðu Skuggahverfi í Reykjavík. Nokkuð algengt er að fólk haldi að nafngift hverfisins sé tilkomin vegna þess að þar hafi búið fólk sem fékkst við skuggalega iðju en svo er ekki. Hverfið hlaut nafn sitt af býlinu Skugga sem staðsett var nokkru austar og ofar en bensínstöðin Klöpp er nú. Húsbændur í Skugga voru tómthúsmenn eins og reyndar langflestir íbúar Skuggahverfisins upp úr aldamótunum 1800. Leikskólinn Lindarborg var formlega opnaður 18. maí 1994.

  Heimastöðin Lindarborg er í tveimur gömlum húsum sem opnað var á milli og gert að einu. Annarsvegar er Lindargata 26 sem áður var Blikksmiðja Reykjavíkur og hinsvegar Veghúsastígur 5 sem kallaður var Smárahús. Í því húsi var Ragnar í Smára með ýmsa starfsemi og síðast bókaforlagið Helgafell. Í heimastöðinni Lindarborg eru þrjár deildar: Krossfiskadeild, Kuðungadeild og Skeljadeild. 

  Í Miðborg - Lindarborg - eru börn á aldrinum 14 mánaða til 5 ára. 
  Elsti árgangur Miðborgar er á Hæð í Miðborg - Njásborg. 

   S: 411-3560

  stadsetning lindarborg

 • Njálsborg

  Njálsborg

  Heimastöðin Njálsborg er sett saman úr tveimur gömlum timburhúsum á Njálsgötunni í Reykjavík. Frá árinu 1981 fór starfsemin einungis fram í húsinu Njálsgötu 9 en þar var starfrækt ein tvísetin deild með 26 börnum, fyrir og eftir hádegi. Árið 1993 keypti Reykjavíkurborg húsið númer 11 og byggð var tengiálma á milli húsanna.  Þá var skólinn stækkaður í þrjár deildir og hafin var starfsemi með 50 börn samtímis. Í dag eru 41 barn við leik og störf í Njálsborgarhúsi ásamt níu kennurum. Deildarnar heita Klöpp og Hæð en þar dvelja elstu börn Miðborgar. 

  Í Miðborg - Njálsborg - eru tveir elstu árgangarnir í leikskólanum.

  Öll elstu börn Miðborgar koma saman síðasta árið sitt á Hæð. Árið áður eru þau í svokölluðu Kiðlingastarfi þar sem börnin hittast í Miðborg - Njálsborg - einu sinni í viku. Nánari upplýsingar um Kiðlingastarfið er hér á heimasíðunni: Leikskólinn - Leikskólastarf. 

  S: 411-3550

  stadsetning njalsborg