TÖFRANDI TUNGUMÁL - TUNGUMÁL VIKUNNAR

Í tungumálavikunum eru heimamál barna og kennara tekin fyrir. Þá er sjónum beint að einu tungumáli í hverri viku. Hugmyndin á bak við tungumál vikunnar er að hvert tungumál fái rými í skipulagi leikskólans. Kennarar kynna tungumálið, fá upplýsingar frá foreldrum um hvernig orð eins og fataklefi, salerni, listasmiðja, eldhús, góðan dag, bless, takk og velkomin eru skrifuð á tungumálinu og merkja umhverfið. Börnin á eldri deildunum taka virkan þátt í því að undirbúa og hengja upp merkingar. Í tengslum við þá vinnu hefur áhugi barnanna á mismunandi ritmáli kviknað og hafa þau sum verið að spreyta sig á að skrifa orð og setningar á mismunandi tungumálum.

  

Í tungumálavikunum heilsum við og kveðjum á tungumáli vikunnar og lærum nokkur orð á tungumálinu og/eða lag, gjarnan í samverustundum og við matarborðið en einnig fyrir utan það. Þá hvetjum við foreldra til þess að koma og lesa fyrir börnin, kenna þeim lag, telja á tungumálinu eða hvað sem þeim dettur í hug. Börnin eru líka hvött til þess að koma með bækur á sínu heimamáli í leikskólann. Einnig reynum við að tengja þema mánaðarins við tungumálin í leikskólanum. Sem dæmi þá var þema febrúarmánaðar ævintýri en þá báðum við foreldra um að koma með eða segja okkur frá ævintýri á heimamáli barnanna ásamt því að safna ævintýrum, svo sem Rauðhettu, á mörgum tungumálum.

Síðan við byrjuðum á tungumáli vikunnar og að merkja umhverfið finnum við fyrir auknum áhuga á tungumálum á meðal barna, kennara og foreldra, líka þeirra sem eru með íslensku að móðurmáli. Til dæmis, þegar tungumál vikunnar var pólska þá kom drengur með blað í leikskólann sem hann og pabbi hans höfðu dundað sér við að skrifa, orð á íslensku og pólsku en hvorugur þeirra talar pólsku. Börnin eru líka farin að segja upp úr þurru við kennara eða við hvort annað eitthvað á borð við ég veit hvað bless er á filippseysku eða ég veit hvað melóna er á pólsku.

Það er mjög gaman að sjá að vinnan skilar sér heim og að börn og foreldrar með íslensku að móðurmáli séu ekki síður virkir þátttakendur. Einnig höfum við tekið eftir að börn sem áður sýndu því lítinn áhuga að tala um sitt móðurmál í leikskólanum fá allt aðra sýn á það þegar þeirra móðurmál er tungumál vikunnar. 

Ein af þeim hugmyndum sem kom frá foreldrum á kynningarfundi um Töfrandi tungumál í maí 2017 var að börnin kynntu sína persónulegu menningu. Þema marsmánaðar var heimamenning og var ákveðið að börnin fengju karton með sér heim og að börn og foreldrar ynnu saman að því að búa til veggspjaldum hvað börnin vildu sýna að heiman. Á sumum deildum var verkefnið unnið í bláu bókina, skráningarbók barnanna. Verkefnið hefur vakið mikla lukku hjá börnum og foreldrum og börnin eru virkilega stolt af sínu veggspjaldi. Þau eru afar fjölbreytt, sum ákváðu aðeins að teikna myndir, önnur aðeins að nota ljósmyndir og enn önnur voru bæði með teikningar og myndir. Veggspjöldin hafa gefið tækifæri til samskipta um mismunandi heimamenningu barnanna.