Hugmyndin með kiðlingastarfinu er að börn í næstelsta árgangi hittist og kynnist þar sem þau verða saman á Hæð á næsta skólaári. Hæð er staðsett í Njálsborgarhúsi við Njálsgötu 9 en þar eru elstu börn leikskólans. Börn úr öllum húsum Miðborgar, Barónsborg, Lindarborg og Njálsborg, hittast á miðvikudagsmorgnum milli kl. 10 og 11 á Hæð. Börnin fara ýmist í val eða vinna mismunandi verkefni tengd þema mánaðarins eða ákveðnum dögum, s.s. Evrópska tungumáladeginum. Börnin eru misfljót að klára verkefnin en þegar þau eru búin mega þau velja sér leikefni.

Dæmi um Kiðlingastarf veturinn 2016 - 2017

September 2016 – þema: Haustið

- Fyrsta kiðlingastarf vetrarins var miðvikudaginn 28. september og unnum við þá verkefni í tengslum við Evrópska tungumáladaginn sem haldið er upp á 26. september ár hvert. Við töluðum um hvað væru töluð mörg tungumál í Miðborg og hvað mörg tungumál í heiminum. Kennarar sögðu frá sinni reynslu og í kjölfarið urðu líflegar umræður meðal barna og kennara um hvaða tungumál við kunnum, höfum heyrt, langar að læra o.s.frv. Því næst settust börnin við borð og teiknuðu sjálfsmynd þar sem þau merktu inn á hvaða tungumál þau kynnu og hvaða tungumál þau langaði til þess að læra.

Október 2016 – þema: Ég sjálf/ur + vinátta

- Verkefni: Umræða á meðal barna og kennara um áhugamál. Við töluðum um tungumálin sem við tölum, hvað lætur okkur líða vel og hvað okkur finnst skemmtilegt. Börnin settust síðan við borð og teiknuðu mynd af sér og áhugamálum sínum. Eftirfarandi kom fram á myndunum: að teikna, lita, fara í göngutúr, leika í draugaleik, lesa, prjóna, byggja hús, elda mat, leika með bíla, leika við vini, dansa, leika með blöðrur, sigla, leika í drekaleik, fara í sund, fara í fimleika, keyra löggubíl, spila tónlist, spila fótbolta, leira og mála.

Nóvember 2016 – þema: Heimamenning

- Verkefni: Umræða um persónulega menningu, hvað er mikilvægt fyrir okkur sjálf og hverjir eru styrkleikar okkar (innblástur fenginn af menningarmótsverkefni Borgarbókasafns:

http://tungumalatorg.is/menningarmot/). Við skoðuðum saman Fjölskyldubókina eftir Todd Parr og út frá því töluðum við um mismunandi fjölskyldugerðir. Kennari kom með nokkra muni og bækur sem höfðu þýðingu fyrir hana. Því næst settust börnin við borð þar sem búið var að setja upp ýmsan efnivið og þau bjuggu til eitthvað sem þeim fannst áhugavert, skemmtilegt og/eða tengdist þeirra heimamenningu. Verk barnanna voru mjög fjölbreytt. Nokkur börn teiknuðu eða bjuggu til uppáhaldsleikfangið sitt eða bangsa, önnur eitthvað sem þeim þykir skemmtilegt að gera heima eða finnst fyndið, önnur teiknuðu eða föndruðu vini sína eða foreldra, önnur eitthvað sem þeim þykir gott að borða og enn önnur hvað þau langaði til þess að gera í framtíðinni (t.d. var draumur einnar stúlku að verða rokkstjarna).

Desember 2016 – þema: Jólin

- Verkefni: Kennari sagði frá íslensku jólasveinunum 13. Einnig hlustuðum við á lagið um jólaköttinn og teiknaði kennari textann upp og ræddi við börnin um merkingu orða sem voru þeim ókunn. Börnin teiknuðu síðan jólamyndir eða sömdu jólasögu.

Janúar 2017 – þema: Ljós og skuggar

- Verkefni: Settar voru upp stöðvar þar sem börnin gátu leikið sér með ljós og skugga. Á einni stöðinni var myndvarpi og kennari sagði sögu sem var varpað upp á vegg. Eftir söguna léku börnin sér með skuggabrúður og kennari sýndi þeim hvernig hægt væri að búa til skuggafígúrur með höndunum. Á annarri stöð léku börnin sér með vasaljós og á þriðju stöðinni voru ljósakubbar þar sem börnin gátu leikið sér með stafi, form og liti.

Febrúar 2017 – þema: Gamli tíminn

- Verkefni: Ferð í Árbæjarsafnið. Börnin fóru með strætó í Árbæjarsafnið á sýninguna Komdu að leika þar sem börnin gátu skoðað, snert og leikið með leikföng frá mismunandi tímabilum.

Mars 2017 – þema: Ævintýri

- Verkefni: Umræða um ævintýri, hvaða ævintýri börnin þekkja og finnst skemmtileg. Kennari las söguna Svanga lirfan með leikmunum. Börnin settust síðan við borð og sömdu sögu eða teiknuðu ævintýramynd.

- Val: Í valinu var boðið upp á leikefni með ævintýraþema. Á einni stöð sagði kennari börnum söguna Gullbrá og birnirnir þrír með leikmunum. Á öðrum stöðvum voru m.a. holukubbar og búningar og föndur þar sem ýmis efniviður var settur á borð, t.d. myndir úr klassískum ævintýrum.