Foreldrasamstarf er afar mikilvægt og hefur jákvæð áhrif á leikskólastarfið í heild sinni þar sem það stuðlar að jákvæðari viðhorfum bæði hjá foreldrum og starfsfólki. Að kynnast starfsfólkinu, börnunum, foreldrum barnanna og leikskólastarfinu er grundvöllur þess að geta átt samræður við barnið um daginn og þannig er hægt að leiða það áfram í samræðum og efla þar með mál- og félagsþroska þess. Sýnt hefur verið fram á að það eykur vellíðan barna að finna að foreldrar hafa áhuga á því sem verið er að gera í leikskólanum og þekkja vel til hans. Þannig fá þau skilaboð um að það sem þau aðhafast á daginn er mikilvægt. Að taka þátt í foreldrafélagi eða foreldraráði er besta leiðin til þess að kynnast leikskólanum vel og opnar einnig möguleika á því að geta haft áhrif á starfið og það umhverfi sem börnunum er búið í leikskólanum.

Foreldrar eru hagsmunahópur sem þarf að huga að velferð barna sinna. Samtal foreldra um það sem vel er gert eða betur má fara er mikilvægt til að veita aðhald og skilboð um hvert stefna skal í málefnum leikskólanna. Í Reykjavík starfar nefnd (skóla- og frístundaráð) sem fjallar um málefni leikskóla og þar eiga foreldra einn fulltrúa sem hefur málfrelsi og tillögurétt. Til þess að viðkomandi aðili virki sem talsmaður foreldra þarf hann að vera í góðu sambandi við sitt  bakland til að geta miðlað upplýsingum og komið á framfæri tillögum og hugmyndum.

Heimili og skóli - landssamtök foreldra eru frjáls félagasamtök sem starfa óháð stjórnmálaflokkum eða trúfélögum. Foreldrar og forráðamenn barna geta gerst félagar í Heimili og skóla og aðrir geta gerst styrktarfélagar. Samtökin veita ráðgjöf til foreldra og foreldrasamtaka og gefa út tímarit og ýmiss konar efni um foreldrastarf. Markmið samtakanna er að stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna og unglinga. Þúsundir foreldra eru félagar í Heimili og skóla og með stuðningi þeirra hefur tekist að byggja upp þjónustu við foreldra og félög þeirra.

Fjölskylda og leikskóli - Handbók um samstarf er leiðarvísir fyrir leikskólakennara og annað leikskólastarfsfólk um samstarf við foreldra. Handbókinni er skipt upp í þrjá meginkafla. Í þeim fyrsta er fjallað um samstarf starfsfólks við foreldra og fjölskyldur og hvað helst ætti að einkenna það. Í öðrum kafla er fjallað um upphaf leikskólagöngunnar og þann tíma sem í leikskólum er kallaður aðlögun. Þriðji kafli bókarinnar fjallar um þátt foreldra í mati á leikskólastarfinu, foreldrafundi, foreldraráð og fleira.

foreldrasamstarf 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Yia Yia and parents 1920 - Wikimedia Commons