Í tungumálavikunum eru heimamál barna og kennara tekin fyrir. Þá er sjónum beint að einu tungumáli í tvær vikur í senn. Hugmyndin að baki tungumáli vikunnar er að hvert tungumál fái rými í skipulagi leikskólans. Kennarar kynna tungumálið, fá upplýsingar frá foreldrum um hvernig einstaka orð eru skrifuð á tungumálinu og merkja umhverfi skólans en börnin á eldri deildunum taka virkan þátt í því að undirbúa og hengja upp merkingar. Í tengslum við þá vinnu hefur áhugi barnanna á mismunandi ritmáli kviknað og hafa þau sum verið að spreyta sig á að skrifa orð og setningar á mismunandi tungumálum.

Í tungumálavikunum heilsum við og kveðjum á tungumáli vikunnar og lærum meðal annars nokkur orð á tungumálinu og/eða lag. Þá hvetjum við foreldra til þess að koma í leikskólann og lesa fyrir börnin, kenna þeim lag, telja á tungumálinu eða hvað sem þeim dettur í hug. Börnin eru líka hvött til þess að koma með bækur á sínu heimamáli í leikskólann sem og tónlist. Einnig reynum við að tengja þema mánaðarins við tungumálin í leikskólanum. Sem dæmi má nefna er þema febrúarmánaðar ævintýri en þá gætu foreldrar meðal annars komið með eða sagt börnunum ævintýri á heimamáli þeirra.

Síðan við byrjuðum á tungumáli vikunnar og að merkja umhverfið finnum við fyrir auknum áhuga á tungumálum á meðal barna, kennara og foreldra, líka þeirra sem eru með íslensku að móðurmáli. Börnin eru til dæmis farin að segja upp úr þurru við kennara eða við hvort annað eitthvað á borð við „ég veit hvað bless er á filippseysku“ eða „ég veit hvað melóna er á pólsku“.

Einnig höfum við tekið eftir að börn sem áður sýndu því lítinn áhuga að tala um sitt móðurmál í leikskólanum fá allt aðra sýn á það þegar þeirra móðurmál er tungumál vikunnar.